Innlent

Telja að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Húsið gjöreyðilagðist í brunanum.
Húsið gjöreyðilagðist í brunanum. Vísir/Egill

Allt bendir til þess að eldurinn sem kviknaði í íbúðarhúsi í uppsveitum Borgarfjarðar á sunnudag hafi kviknað út frá rafmagni. Kona á áttræðisaldri lést í eldsvoðanum.

Allt tiltækt lið Slökkviliðs Borgarfjarðar var kallað út að Augastöðum í Hálsasveit skömmu fyrir klukkan sex á sunnudag. Aðstæður til slökkvistarfs voru erfiðar en húsið var alelda þegar slökkviliðsmenn komu á staðinn.

Jón Ólason yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi segir í samtali við Vísi að rannsóknin á brunanum, sem lögregla á Vesturlandi og tæknideild lögreglu á höfuðborgarsvæðinu fara með, sé enn í gangi.

„En þeir telja sig vita með nokkurri vissu að þetta sé út frá rafmagni,“ segir Jón. Nokkur heimilistæki úr húsinu eru nú til rannsóknar með tilliti til þessa. „Það er verið að fara yfir tækin og sjá hvað það var sem olli þessum bruna.“

Vettvangsrannsókn lögreglu er nú lokið, að sögn Jóns. Íbúðarhúsið gjöreyðilagðist í brunanum.


Tengdar fréttir

Lést í eldsvoðanum í Borgarfirði

Kona lést í eldsvoða í íbúðarhúsi í uppsveitum Borgarfjarðar í gær. Við komu slökkviliðs og lögreglu á vettvang var íbúðarhúsið alelda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×