Enski boltinn

Son segir að Mourinho sé misskilinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Son segir að Mourinho sé miskilinn en Suður-Kóreumaðurinn líkar vel við Portúgalann.
Son segir að Mourinho sé miskilinn en Suður-Kóreumaðurinn líkar vel við Portúgalann. Sebastian Frej/MB Media/Getty Images

Son Heung-min, framherji Tottenham, segir að stjórinn sinn hjá Tottenham, Jose Mourinho, sé misskilinn af mörgum. Son hefur verið sjóðandi heitur undir stjórn Mourinho.

Amazon þættirnir um Tottenham hafa vakið mikla athygli. Þar má sjá m.a. Mourinho rífast við Danny Rose en Mourinho hefur verið þekktur fyrir að lenda upp á kant við stjörnur á borð við Paul Pogba og Iker Casillas.

Suður-Kóreumaðurinn er hins vegar afar hrifinn af Mourinho og hefur launað honum með að raða inn mörkum að undanförnu.

„Sumt fólk misskilur stjórann,“ sagði Son í samtali við Goal. Hann heldur varla vatni yfir Portúgalanum og segir að sigurhugarfar hans hafi smitast út í leikmannahópinn og rúmlega það.

„Kannski hafa þeir mismunandi skoðanir á því hvernig hann er en við sjáum hann á hverjum degi og það er frábær stemning á æfingasvæðinu. Við hlæjum og brosum hvern einasta dag á æfingasvæðinu og þú getur séð það í Amazon þáttunum.“

„Hann er með magnað sigurhugarfar og við trúum við því að hann getur komið með árangur inn í félagið og komið okkur á næsta stig. Hann hefur verið frábær og ég mun alltaf muna það þegar hann kom hingað fyrst og varð stjórinn minn,“ sagði Son.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×