Enski boltinn

Segir börnin fara svöng í háttinn og líða eins og þau skipti ekki máli

Sindri Sverrisson skrifar
Marcus Rashford fagnaði sigri gegn PSG á þriðjudagskvöld en harmaði í gær tap í baráttunni fyrir bættum kjörum barna í Englandi.
Marcus Rashford fagnaði sigri gegn PSG á þriðjudagskvöld en harmaði í gær tap í baráttunni fyrir bættum kjörum barna í Englandi. Getty/Xavier Laine

Marcus Rashford lýsti yfir gríðarlegum vonbrigðum eftir að bresk stjórnvöld ákváðu að hafna tillögu um fríar máltíðir á frídögum fyrir fátæk börn í landinu.

Málið hefur verið enska landsliðsframherjanum mikið hjartans mál en hann ólst sjálfur upp við fátækt í Wythenshawe í Manchester. Hann hefur barist fyrir því að börn sem minna mega sín búi ekki við sult, og vann stóran sigur í þeirri baráttu í sumar, en ekki að þessu sinni.

Þegar skólum var lokað í vor vegna kórónuveirufaraldursins fengu fjölskyldur matarmiða til að geta fengið fríar máltíðir, og þannig var það áfram í sumar eftir að stjórnvöld sneru fyrri ákvörðun sinni í kjölfar baráttu Rashfords.

Þeirri hugmynd að 1,4 milljón barna, sem talin eru hjálpar þurfi í Englandi, fengju 15 punda matarmiða á viku þegar skólastarf lægi niður, fram að páskum 2021, var hins vegar hafnað í gær. Rashford tjáði sig um málið á Twitter:

„Horfum framhjá öllum hávaðanum, skotunum, flokkapólitíkinn og einbeitum okkur að raunveruleikanum. Umtalsverður fjöldi barna fer í háttinn í kvöld ekki bara svöng heldur með þá tilfinningu að þau skipti ekki máli, eftir þau ummæli sem hafa fallið í dag,“ skrifaði Rashford, sólarhring eftir að hann skoraði sigurmark Manchester United gegn PSG í Meistaradeild Evrópu í fyrrakvöld. 

Rashford sagði málið snúast um mannúð.

„Ég er ekki með sömu menntun og stjórnmálamenn, eins og margir hafa bent á á Twitter, en ég hef félagslegu reynsluna af því að vera í þessum aðstæðum og að hafa varið tíma með fjölskyldum og börnum sem verða verst fyrir barðinu á þessu. Þessi börn skipta máli,“ skrifaði Rashford.


Tengdar fréttir

Rashford fékk heiðursorðu drottningar

Marcus Rashford, leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, var meðal þeirra sem hlutu heiðursorðu Bretlandsdrottningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×