Viðskipti innlent

Ísland farið af „gráa listanum“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra boðaði til blaðamannafundar vegna málsins klukkan 13:30 í dag.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra boðaði til blaðamannafundar vegna málsins klukkan 13:30 í dag. Vísir/vilhelm

Ísland hefur verið fjarlægt af svokölluðum „gráum lista“ FATF, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þetta var ákveðið á aðalfundi hópsins í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en Ísland var sett á listann í október í fyrra. Í tilkynningu segir að ákvörðunin hafi verið tekin í kjölfar vettvangsathugunar hér á landi í lok september. Þar hafi sérfræðingar FATF staðfest að lokið hefði verið „með fullnægjandi hætti við þær aðgerðir sem Íslandi var gert að grípa til í því skyni að komast af umræddum lista.“

„Við sama tilefni var jafnframt staðreynt af hálfu umræddra sérfæðinga að til staðar væri ríkur pólitískur vilji hjá íslenskum stjórnvöldum til að halda áfram vinnu við að styrkja varnir Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,“ segir í tilkynningu. 

Haft er eftir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í tilkynningu að lyft hafi verið grettistaki í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka undanfarin tvö ár. Þá færir hún öllum sem komið hafa að því að fá Ísland af listanum þakkir og hamingjuóskir í tilefni dagsins.

Ísland var sett á listann í október í fyrra og var málið litið alvarlegum augum af stjórnvöldum. Strax var tekið fram af þeirra hálfu að unnið hefði verið, og yrði áfram, ötullega að því að bæta varnir gegn peningaþvætti hér á landi. Þegar ljóst var að Ísland yrði mögulega sett á listann gaf dómsmálaráðherra út að það yrði vonandi aðeins til skamms tíma, sem varð raunin.


Tengdar fréttir

Ísland áfram á gráa listanum

Ísland verður áfram á gráum peningaþvættislista sam­tak­anna Fin­ancial Act­ion Task Force (FATF) fram í júní hið minnsta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×