Enski boltinn

Setur spurningar­merki við VAR eftir jafn­teflið á Old Traf­ford

Anton Ingi Leifsson skrifar
Maguire heldur í fyrirliða Chelsea. Ekkert var dæmt.
Maguire heldur í fyrirliða Chelsea. Ekkert var dæmt. Oli Scarff - Pool/Getty Images

Cesar Azpilicueta, fyrirliði Chelsea, setur spurningarmerki við VAR eftir markalaust jafntefli Chelsea gegn Manchester United á Old Trafford í dag.

Leikurinn var ekki mikið fyrir augað en bæði lið vildu fá sína vítaspyrnuna. Fyrirliðinn sagði að hann hefði viljað sjá Chelsea halda boltanum betur í síðari hálfleik.

„Mér fannst við geta fengið meira út úr þessu. Við fundum svæðin en síðasta sending klikkaði eða við tókum ekki réttar ákvarðanir. Við vörðumst vel og Mendy varði vel, einu sinni í fyrri hálfleik og einu sinni í síðari, en við gátum gert meira,“ sagði fyrirliðinn eftir leikinn.

„Við stýrðum leiknum betur í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik vorum við að flýta okkur of mikið og hreyfðum boltann ekki nægilega vel. Við misstum boltann of auðveldlega sem gerði það að verkum að við misstum stjórnina en við stóðum saman og allir lögðu sig fram.“

Chelsea vildi fá vítaspyrnu í leiknum eftir að Azpilicuta féll í teignum eftir baráttu við Harry Maguire. Fyrirliði Chelsea setti spurningarmerki við VAR í þeirri stöðu og fannst þetta sjálfum vera vítaspyrnu.

„Góð spurning. Á vellinum fannst mér þetta víti og hann tók utan um hálsinn á mér og axlirnar. Dómarinn tekur ákvörðunina og VAR er til þess að hjálpa. Dómarinn tekur ákvörðunina og skjárinn er til þess að hjálpa. Þetta var 50-50 einvígi svo afhverju ekki að taka tuttugu sekúndur og skoða þetta betur?“

„Mér finnst VAR geta bætt sig mikið. Þetta gerist í fótboltanum og ég segi ekki að það sé alltaf víti þegar einhver er snertur í teignum. Á Englandi er þetta harður leikur og í fótboltanum og í ensku úrvalsdeildinni erum við alltaf að reyna bæta okkur og þetta er ekki gagnrýni. Við getum öll hjálpast að, að gera þetta að betri deild.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×