Enski boltinn

Ancelotti sakaði dómarann um að láta umræðu um Liverpool leikinn hafa áhrif

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton,  var mjög ósáttur á hliðarlínunni í tapleiknum á móti Southampton á St Mary's leikvanginum um helgina.
Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton,  var mjög ósáttur á hliðarlínunni í tapleiknum á móti Southampton á St Mary's leikvanginum um helgina. Getty/Robin Jones

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton, var allt annað en sáttur með það að Lucas Digne fékk að líta rauða spjaldið í gær þegar Southampton varð fyrsta liðið til að vinna Everton í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Ancelotti sakaði dómara leiksins Kevin Friend um að vera undir áhrifum af mikilli umræðu um ljót brot leikmanna Everton í 2-2 jafnteflinu á móti Liverpool.

Markvörðurinn Jordan Pickford fékk þá enga refsingu fyrir að stökkva á Virgil van Dijk sem endaði með því að Van Dijk sleit krossband en Richarlison fékk aftur á móti beint rautt spjald fyrir brot á Thiago. Thiago er búinn að missa af tveimur leikjum síðan og Van Dijk spilar ekki meira á tímabilinu.

„Þetta rauða spjald var algjört grín,“ sagði Ancelotti og sagði jafnframt að Everton ætlaði að áfrýja rauða spjaldinu.

„Þetta var ekki viljandi brot og alls ekki gróft. Kannski var þetta gult spjald. Kannski eftir alla þessa umræðu á móti Pickford og á móti Richarlison, þá hafði hún áhrif á ákvörðun dómarans og það er ekki rétt. Það er ekki sanngjarnt,“ sagði Ancelotti.

„Við munum auðvitað áfrýja. Þetta var ekki gróft brot. Þetta var óheppilegt samstuð og það er ekki sanngjarnt að hann fékk rautt spjald fyrir það,“ sagði Ancelotti.

„Við þurfum ekki að vera vonsviknir því við erum ennþá í efsta sæti deildarinnar. Það er ótrúlegt afrek hjká okkur og við munum reyna að halda okkur þar,“ sagði Ancelotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×