Enski boltinn

Vardy náði Ryan Giggs í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Vardy fagnar sigurmarki Leicester á móti Arsenal í gær.
Jamie Vardy fagnar sigurmarki Leicester á móti Arsenal í gær. EPA-EFE/Catherine Ivill

Jamie Vardy byrjaði kannski á bekknum í 1-0 sigri Leicester á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi en það var hann sem réði á endanum úrslitum í leiknum.

Vardy skallaði boltann inn á 80. mínútu leiksins og þetta eina skot Leicester í leiknum var nóg til að landa öllum þremur stigunum.

„Hugmyndin var alltaf að setja Jamie inn. Hann er ógnar mikið og kemur með sjálfstraust inn í liðið. Hann er heimsklassa framherji,“ sagði Brendan Rodgers við breska ríkisútvarpið eftir leikinn.

„Hann er ótrúlega hæfileikaríkur og við hefðum vilja láta hann byrja leikinn en hann hefur verið frá vegna kálfameiðsla og við urðum að passa upp á hann. Planið var að vera enn inn í leiknum og láta hann spila síðasta hálftímann. Hann lítur út fyrir að vera að fara að skora í hverjum leik,“ sagði Rodgers.

Þetta var fyrsti sigur Leicester á Arsenal í 47 ár en þrátt fyrir það hefur Jamie Vardy náð að skora 11 mörk í 12 deildarleikjum á móti Arsenal. Nú loksins dugði mark frá honum til sigurs. Nú er það bara Wayne Rooney sem hefur skorað oftar hjá Arsenal í ensku úrvalsdeildinni.

Jamie Vardy hélt áfram að raða inn mörkunum á móti risunum en hann er nú kominn með 26 mörk í 36 leikjum á móri Arsenal (12/11), Manchester City (13/8) og Liverpool (11/7) og hefur svo sannarlega verið maður stóru leikjanna.

Jamie Vardy skoraði þarna sitt 109. mark í ensku úrvalsdeildinni og komst þar með upp fyrir Peter Crouch og upp að hlið Ryan Giggs. Giggs spilaði auðvitað aftar á vellinum en Vardy. Vardy spilaði aftur á móti sinn fyrsta leik í ensku deildarkeppninni ekki fyrr en hann var 25 ára gamall.

Jamie Vardy hjálpaði Leicester vissulega að vinna enska meistaratitilinn á sínum tíma en hann hefur gjörsamlega blómstrað síðan að Brendan Rodgers tók við liðinu. Það var í febrúar 2019 og síðan hefur Vardy skorað 39 mörk í 51 leik í ensku úrvalsdeildinni. Hinir leikmenn Leicester hafa skorað samanlagt 57 mörk á þessum tíma.

Vardy var markakóngur í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð með 23 mörk og hefur síðan skorað á 64 mínútna fresti í deildinni á núverandi leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×