Enski boltinn

Sergio Agüero missir líklega af Liverpool leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Agüero átti erfitt með að leyna svekkelsi sínu eftir að hann meiddist í leiknum á móti West Ham en Argentínumaðurinn þurfti að fara af velli í hálfleik.
Sergio Agüero átti erfitt með að leyna svekkelsi sínu eftir að hann meiddist í leiknum á móti West Ham en Argentínumaðurinn þurfti að fara af velli í hálfleik. AP/Paul Childs

Sergio Agüero verður ekki með Manchester City á móti Marseille í Meistaradeildinni í kvöld og Pep Guardiola var spurður út í meiðsli argentínska sóknarmannsins á blaðamannafundi fyrir leikinn í gær.

„Hann verður frá í tvær til þrjár vikur, Sergio (Agüero) og (Benjamin) líka,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. Guardiola tók Agüero af velli í hálfleik í 1-1 jafntefli við West Ham í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

„Sergio meiddist á vöðva í síðasta leik. Þegar þú ert frá í fjóra eða fimm mánuði vegna hnémeiðsla þá er alltaf áhætta þegar þú kemur til baka,“ sagði Guardiola.

Manchester City fær Liverpool í heimsókn á Etihad leikvanginn 8. nóvember og það væri slæmt fyrir City að vera án besta framherja síns í leiknum. Það lítur þó út fyrir það ef marka má orð Guardiola.

„Við reyndum að fara eins varlega með hann og við gátum. Hann fékk bara 50 til 55 mínútur í hverjum leik. Það var bara ekki möguleiki að koma í veg fyrir þetta. Þetta mun snúast um hvernig þessi meiðsli eru. Við búumst minnst við tíu til fimmtán dögum en það gætu orðið þrjár vikur eða jafnvel heill mánuður,“ sagði Guardiola. Leikurinn á móti Liverpool er eftir tólf daga.

Sergio Agüero er því á meiðslalistanum ásamt þeim Gabriel Jesus, Fernandinho, Benjamin Mendy, Nathan Ake og Fernandinho.

„Kevin (De Bruyne) er kominn aftur og spilaði nokkrar mínútur á móti West Ham. Aymeric (Laporte) er líka leikfær á ný. Það er stutt í bæði Nathan (Ake) og Gabriel (Jesus) sem ættu að vera komnir til baka eftir viku eða tíu daga. Hinir verða frá í tvær til þrjár vikur,“ sagði Guardiola.

Guardiola sagði síðan að Manchester City hefði ekki haft efni á því að kaupa framherja í sumar sem er núna að koma í bakið á félaginu vegna meiðsla Sergio Agüero og Gabriel Jesus á sama tíma.

„Þegar þú ákveður að kaupa framherja þá verður hann að vera í sama klassa og Agüero og Jesus. Við höfðum ekki efni á því og það er veruleikinn okkar,“ sagði Pep Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×