Innlent

„Mjög slæm för“ eftir utan­vega­akstur í Bjarnar­flagi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Einhverjir hafa hringspólað í Bjarnarflagi.
Einhverjir hafa hringspólað í Bjarnarflagi. Umhverfisstofnun

Náttúruspjöllum í Bjarnarflagi í Mývatnssveit verður vísað til lögreglu eftir í ljós komu djúp för í sendnum mel á svæðinu eftir utanvegaakstur.

Í tilkynningu á vef Umhverfisstofnunar segir að förin séu „mjög slæm“ og séu eftir akstur mótorkrosshjóla í sendnum mel. Hann sé útspólaður og með djúpum förum. Af ummerkjum að dæma hafi aksturinn átt sér stað á allar síðustu dögum.

Stofnunin muni vísa þessum náttúruspjöllum til lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Bjarnarflag er jarðhitasvæði skammt austan Reykjahlíðar við Mývatn.

Í tilkynningunni segir að Umhverfisstofnun hafi á undanförnum misserum ítrekað borist ábending um skemmdarakstur mótorkrosshjóla í náttúru landsins.

Vill stofnunin ítreka að þessi akstur vélknúinna hjóla er brot á náttúruverndarlögum. Sérstök mótorkrosssvæði hafa verið byggð upp víðsvegar um landið í þeim tilgangi að skapa vettvang fyrir þessa iðju.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×