Innlent

190 sendir heim vegna gruns um smit

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri.
Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri. Barnaskoli.is

Nemendur og starfsmenn í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri hafa verið sendir heim í úrvinnslusóttkví. Þetta kemur fram í bréfi skólastjóra til foreldra í dag.

Þar segir Páll Sveinsson skólastjóri en ástæðan eru nýjar upplýsingar þess efnis að starfsmaður skólans hafi verið í samneyti við smitaðan einstakling í gær. Viðkomandi starfsmaður mun vera kominn í sóttkví og fer í skimun í dag.

Í samráði við svæðislækni sóttvarna og sviðsstjóra fjölskyldusviðs hafi sú ákvörðun verið tekin um hádegisbil að senda nemendur og starfsmenn skólans heim í úrvinnslusóttkví á meðan beðið er niðurstöðu úr skimunum. Frístund verði lokuð í dag vegna þessa.

Þá skýrir Páll hvað gerist í framhaldinu, eftir því hvort starfsmaðurinn greindist jákvæður eða neikvæður.

Ef starfsmaður reynist jákvæður mun rakningateymið gefa upplýsingar um hverjir fara í sóttkví í skólanum.

Ef hann er neikvæður, er úrvinnslusóttkví lokið en allir í bekknum og allir samstarfsmenn og allir nemendur ættu að vera í smitgátt sem þýðir að hugsa sérlega vel að persónubundnum sóttvörnum, handþvott, sprittun og fylgja nándarreglu ítarlega og forðast samneyti við hópa , viðkvæma og aldraða.

„Eins ef einhver fær minnstu einkenni á viðkomandi að koma í næsta skimunartíma í sýnatöku, skimunartímar eru kl. 13-14 í Krónubílakjallaranum á Selfossi og hægt er að panta sýnatöku á heilsuveru. Ef einhver fær slík einkenni og ætlar í sýnatöku er hann í úrvinnslueinangrun þar til hann fær svar úr sýnatökunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×