Þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn hafi sett stórt strik í reikning hrekkjavökunnar hér á landi sem annars staðar í dag voru fjölmargir sem fundu leiðir til að fagna hátíðinni.
Almannavarnir og forsætisráðherra höfðu hvatt fólk til að finna aðrar leiðir til að halda upp á hátíðina en hina klassísku, að ganga í hús og hóta grikk ef ekki fékkst gott.
Fjórar bekkjarsystur á níunda ári í Melaskóla í Vesturbæ Reykjavíkur vöktu athygli á flakki sínu um hverfið og víðar í dag. Segja má að búningar þeirra Bergrúnar, Rósu, Sigríðar Íseyjar og Vigdísar hafi slegið í gegn.
Vinkonurnar níu ára klæddu sig upp sem flugfreyjur WOW air og nutu þar framtaks og hugmyndaflugs Guðrúnar V. Þórarinsdóttur sem starfaði sjálf hjá flugfélaginu sem Skúli Mogensen rak um árabil fram að gjaldþroti í fyrra.
Rebekka Pálsdóttir, móðir Sigríðar Íseyjar, segir foreldrana hafa skipulagt ratleik fyrir stelpurnar. Þær hafi vakið mikla athygli í fjólubláum búningum sem minntu á gamla tíma, þegar flugvélar WOW air flugu um loftin blá og enginn hafði heyrt um kórónuveiruna.
Fjölmörg hús á landinu hafa verið skreytt og má segja að sumar skreytingarnar séu afar metnaðarfullar.
Stefán Máni rithöfundur vakti athygli á þessu skreytta húsi í Sörlaskjóli sem vafalítið hefur orðið ansi draugalegt þegar líða fór á kvöldið.
Þá hrósaði Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, landsmönnum sem hafa lagt sig fram við skreytingar öðru fólki til mikillar gleði.
Þá hefur hús Kitty von Sommertime við Hringbraut vakið mikla athygli. Líklega eru fáir sem toppa Kitty í metnaðarfullri skreytingu á húsi sínu sem sjá má í myndbandinu að neðan.
Kitty elskar hrekkjavökuna en ekki síður jólin sem eru jú handan við hornið. Vegfarendur ættu því að hafa auga með húsi hennar við Hringbraut, rétt austan við Hofsvallagötu.
Vísir hvetur fólk til að setja myndir af vel skreyttum húsum, flottum búningum eða öðru hrekkjavökutengdu í ummæli hér að neðan. Eða senda myndir á ritstjorn(hja)visir.is.