Enski boltinn

„Kannski var ég þreyttur og þess vegna gerði ég þessi heimskulegu mistök“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paul Pogba svekktur eftir að hafa fengið á sig vítaspyrnu gegn Arsenal.
Paul Pogba svekktur eftir að hafa fengið á sig vítaspyrnu gegn Arsenal. getty/Visionhaus

Paul Pogba baðst afsökunar á því að hafa fengið á sig vítaspyrnu í leik Manchester United og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gær og sagðist hafa gert heimskuleg mistök. 

Arsenal vann leikinn á Old Trafford í gær, 0-1. Pierre-Emerick Aubameyang skoraði eina mark leiksins úr vítinu sem Pogba fékk á sig fyrir að brjóta á Héctor Bellerín.

„Eftir frábæra frammistöðu gegn RB Leipzig náðum við okkur ekki á strik í dag,“ sagði Pogba eftir leikinn.

„Við þurfum að finna ástæðuna og hvað mig varðar get ég ekki brotið svona af mér. Ég hélt ég myndi komast í boltann en gerði það ekki og það kostaði okkur. Við þurfum að vera betri með boltann og skora mörk.“

Pogba viðurkennir að hann sé ekki besti varnarmaðurinn í bransanum.

„Ég á ekki að gefa svona víti. Ég hefði átt að leyfa honum að taka boltann og reyna að stöðva fyrirgjöfina. Kannski var ég þreyttur eftir hlaupin áður og þess vegna gerði ég þessi heimskulegu mistök. Ég mun læra af þessu. Ég er ekki besti varnarmaðurinn í eigin vítateig og verð að bæta mig á því sviði,“ sagði Pogba.

United er í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sjö stig.


Tengdar fréttir

Arsenal sótti loks sigur á Old Trafford

Arsenal gerði sér lítið fyrir og lagði Manchester United 1-0 á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Markið skoraði Pierre-Emerick Aubameyang úr vítaspyrnu í síðari hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×