Enski boltinn

Pogba fengið á sig þrjú víti í síðustu sex leikjum í byrjunarliði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paul Pogba brýtur á Héctor Bellerín í leik Manchester United og Arsenal. Í kjölfarið benti Mike Dean á vítapunktinn.
Paul Pogba brýtur á Héctor Bellerín í leik Manchester United og Arsenal. Í kjölfarið benti Mike Dean á vítapunktinn. getty/Stuart MacFarlane

Paul Pogba fékk á sig vítaspyrnu þegar Manchester United laut í lægra haldi fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í gær, 0-1. Pierre-Emerick Aubameyang skoraði eina mark leiksins úr vítinu.

Þetta var þriðja vítið sem Pogba fær á sig í síðustu sex leikjum sínum í byrjunarliði United í ensku úrvalsdeildinni. Andstæðingar United skoruðu úr þeim öllum. Í þessum sex leikjum hefur franski heimsmeistarinn aftur á móti ekki komið með beinum hætti að marki, hvorki skorað né gefið stoðsendingu.

Pogba fékk á sig víti fyrir hendi í 1-1 jafntefli við West Ham í næstsíðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Michail Antonio skoraði úr vítinu.

Pogba fékk einnig á sig víti í 1-6 tapinu fyrir Tottenham fyrir mánuði sem Harry Kane skoraði úr. Pogba braut þá á Ben Davies. Frakkinn fékk svo aftur á sig víti þegar hann braut á Héctor Bellerín í leiknum í gær.

Eftir leikinn baðst Pogba afsökunar á mistökum sínum, sagðist ekki vera góður að verjast í eigin vítateig og sagði að hann hefði kannski verið þreyttur þegar hann fékk á sig vítið.

Það hefur ekki vantað vítin í leiki United í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Í sex deildarleikjum hefur United fengið á sig fjögur víti en fengið þrjú.

United er í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sjö stig og hefur ekki enn unnið leik á heimavelli.


Tengdar fréttir

Arsenal sótti loks sigur á Old Trafford

Arsenal gerði sér lítið fyrir og lagði Manchester United 1-0 á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Markið skoraði Pierre-Emerick Aubameyang úr vítaspyrnu í síðari hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×