Erlent

For­seti Kósovó á­kærður fyrir stríðs­glæpi og segir af sér

Atli Ísleifsson skrifar
Hashim Thaci hefur gegnt embætti forseta Kósovó frá árinu 2016.
Hashim Thaci hefur gegnt embætti forseta Kósovó frá árinu 2016. Getty

Hashim Thaci hefur sagt af sér embætti sem forseti Kósovó eftir að hafa verið ákærður fyrir stríðsglæpi í Kósovóstríðinu undir lok tíunda áratugarins af sérstökum dómstól í Haag. Það var Thaci sjálfur sem greindi frá ákærunni.

AP segir frá því að dómstóllinn sjálfur hafi enn ekki gefið neitt upp um ákæru á hendur forsetanum, en vitað er að sérstakur saksóknari skilaði inn sínum tillögum í júní eftir rannsókn á mögulegum stríðsglæpum í stríði frelsishers Kósovóa og Serba á árunum 1998 til 1999.

Thaci hefur hafnað þeim ásökunum sem á hann eru bornar, en saksóknari hefur sakað Thaci um að hafa borið ábyrgð á nærri hundrað morðum. Þá sé hann grunaður um pyndingar og fleira.

Landsmenn haldi ró sinni

Tilkynning forsetans kemur fáeinum klukkustundum eftir að fréttir bárust af því að Jakup Krasniqi, fyrrverandi forseti kósovóska þingsins, hafi verið handtekinn og fluttur til Haag vegna ásakana um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.

Thaci sagði í dag að hann segði af sér til að tryggja að hann yrði ekki í dreginn fyrir dómstól á sama tíma og hann gegndi embætti forseta. Þannig yrði heilindi kósovíska ríkisins tryggð. Hann hvatti þegna sína jafnframt til að halda ró sinni.

Þingforsetinn Vjosa Osmani mun nú gegna skyldum forseta þar til nýr verður kjörinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×