Erlent

Vilja að moskum öfga­fullra islam­ista í Austur­ríki verði lokað

Atli Ísleifsson skrifar
Greint var frá því í morgun að lögregla í Þýskalandi hafi gert húsleit á fjórum stöðum - í Osnabrück, Kassel og Pinneberg.
Greint var frá því í morgun að lögregla í Þýskalandi hafi gert húsleit á fjórum stöðum - í Osnabrück, Kassel og Pinneberg. AP

Stjórnvöld í Austurríki munu fyrirskipa að moskum öfgafullra islamista í Austurríki verði lokað. Þetta er gert eftir hryðjuverkaárásina í höfuðborginni Vín á mánudag þar sem fjórir létu lífið og um tuttugu særðust.

Karl Nehammer, innanríkisráðherra Austurríkis, greinir frá þessu að því er segir í frétt austurrísku fréttastofunnar APA. Til stendur að kynna tillögur stjórnarinnar á fréttamannafundi í dag.

Húsleit í Þýskalandi

Greint var frá því í morgun að lögregla í Þýskalandi hafi gert húsleit á fjórum stöðum, en um er að ræða heimili og skrifstofur fólks sem talið er að hafi verið í samskiptum við hryðjuverkamanninn, sem sjálfur lést eftir átök við lögreglu.

Húsleit var gerð í Osnabruck, Kassel og Pinneberg í norðurhluta Þýskalands, en ekki er grunur um það að svo stöddu að umrætt fólk hafi átt þátt í undirbúningi árásarinnar.

Áður höfðu fimmtán manns verið handteknir í Austurríki og tveir í Sviss vegna árásarinnar.

Vantrauststillaga felld

Austurríska þingið felldi í morgun vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á hendur innanríkisráðherrans Nehammer, en hún var að sögn lögð fram vegna misbrests í störfum leyniþjónustu og lögreglu sem höfðu borist ábendingar um árásarmanninn.

Árásarmaðurinn var tvítugur að aldri, fæddur í Austurríki en var einnig með norður-makedónskan ríkisborgararétt. Hann hafði hlotið fangelsisdóm í Austurríki árið 2019 fyrir að hafa ætlað sér að ganga til liðs við vígasveitir hryðjuverkasamtakanna ISIS.


Tengdar fréttir

Segir hryðju­verka­manninum í Vín hafa tekist að leika á kerfið

Innanríkisráðherra Austurríkis segir að manninum sem stóð fyrir árásinni í Vín á mánudag, hafi tekist að leika á kerfið með því að fá fulltrúa austurrískra yfirvalda til að halda að hann hafi horfið frá hugmyndum um róttækni eftir að hann hafði áður gert tilraun til að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin ISIS.

Áfall fyrir „litla og saklausa borg“

Hjón, sem búsett eru í Vínarborg, eru harmi slegin vegna hryðjuverkanna í gærkvöldi. Þau hafi ávallt upplifað sig örugg í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×