Heiða Björg Hilmisdóttir bar sigur úr býtum í varaformannskjöri Samfylkingarinnar gegn Helgu Völu Helgadóttur í dag. 889 greiddu atkvæði í kosningunni og hlaut Heiða Björg 60 prósent atkvæða. Forysta flokksins segir sameiningu félagsmanna lykilatriði á leið til sigurs í næstu alþingiskosningum.
„Áherslur okkar eru auðvitað að tryggja það að hér verði ekki aukinn ójöfnuður út úr þessari ójafnaðakreppu sem við erum stödd í. Hér verði störf fyrir fólk, fólk geti menntað sig og nýtt þennan tíma,“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar.
„Í augnablikinu snýst þetta um að fjölga störfum og skapa störf fyrir þá 20 þúsund sem eru atvinnulausir. Halda utan um hina sem búa við erfiðar aðstæður en síðan þurfum við að gera langtímamarkmið,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Hvernig ætlið þið að fara að því að skapa störf?
„Við höfum lagt áherslu á ýmislegt. Annars vegar viljum við takast á við undirmönnun í opinberri þjónustu. Við viljum líka skapa einkafyrirtækjum betra rekstrarumhverfi þannig að þau hafi tækifæri til að ráða fólk í vinnu en ekki segja því upp eins og ríkisstjórnin hefur boðað,“ sagði Logi.
Hvernig verður ykkar kosningabaráttu háttað?
„Við erum byrjuð og við munum halda áfram.“