Enski boltinn

Arteta: Ekki mistök að selja Martinez

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Á góðri stundu.
Á góðri stundu. vísir/Getty

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, kveðst ekki sjá eftir því að hafa selt spænska markvörðinn Emiliano Martinez til Aston Villa í sumar.

Martinez sló í gegn hjá Arsenal eftir að hafa verið varaskeifa í um áratug þegar Bernd Leno meiddist síðasta vor. Í kjölfarið sóttist þessi 28 ára gamli Spánverji eftir byrjunarliðssæti en Arteta taldi sig ekki geta veitt honum þá stöðu og ákvað að treysta áfram á Leno.

„Við settumst niður og vorum sammála um að þetta væri það rétta í stöðunni. Hann vildi byrjunarliðssæti og vildi fá að spila reglulega. Mér fannst rétt að leyfa honum að taka þessa ákvörðun,“ segir Arteta.

Aston Villa var tilbúið að punga út 20 milljónum punda fyrir Martinez og hefur hann staðið sig vel hjá Villa í upphafi leiktíðar en Aston Villa og Arsenal mætast í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

„Hann vann sér inn mikla virðingu hjá félaginu á þessum 10 árum og stóð sig vel síðustu mánuðina. Hann trúði því að Aston Villa væri rétta félagið fyrir sig og ég var ánægður með að leyfa honum að fara þangað fyrir hans feril.“

„Hann er mjög hungraður og ég er sannfærður um að hann muni eiga góðan feril hjá Aston Villa,“ segir Arteta.

Í kjölfarið var íslenski landsliðsmaðurinn Rúnar Alex Rúnarsson keyptur til Arsenal og hefur hann verið varamaður fyrir Bernd Leno til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×