Fótbolti

Sjáðu geggjað sporðdrekamark í þýska boltanum um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valentino Lazaro sést hér skora þetta magnaða mark í gær.
Valentino Lazaro sést hér skora þetta magnaða mark í gær. EPA-EFE/Martin Meissner

Austurríkismaðurinn Valentino Lazaro skoraði magnað mark fyrir Borussia Mönchengladbach í þýsku bundesligunni í gær.

Það voru skoruð sjö mörk í leik Bayer Leverkusen og Borussia Mönchengladbach í þýsku bundesligunni um helgina en það var þó eitt þessara marka sem hefur stolið fyrirsögnunum þrátt fyrir að markaskorarinn hafi verið í tapliðinu.

Bayer Leverkusen vann leikinn 4-3 en mark Austurríkismannsins Valentino Lazaro í uppbótatíma leiksins fær mesta athyglina. Markið sem var sárabótamark og skipti litlu máli fyrir úrslitin hefur nú verið sýnt út um allan heim.

Valentino Lazaro skoraði þá sitt fyrsta mark fyrir Borussia Mönchengladbach með mjög eftirminnilegum hætti.

Patrick Herrmann átti fyrirgjöf frá hægri kanti sem var aðeins fyrir aftan Valentino Lazaro sem dó þó ekki ráðalaus heldur tók boltann viðstöðulaust með hælnum eða með svokallaðri sporðdrekaspyrnu.

Það var ekki sökum að spyrja heldur hitti hann boltann frábærlega sem sigldi upp í fjærhornið óverjandi fyrir Lukás Hrádecký í marki Bayer Leverkusen.

Það er lítill vafi á því að þetta mark mun koma til greina sem eitt fallegasta mark ársins 2020 þegar FIFA gerir upp árið.

Valentino Lazaro er í láni hjá Gladbach frá ítalska félaginu Internazionale Milan en hann var á láni hjá Newcastle í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Þess má geta að fyrsti landsleikur Valentino Lazaro á ferlinum var á móti Íslandi en hann hefur alls spilað 28 sinnum fyrir austurríska landsliðið.

Það má sjá sjá þetta geggjaða sporðdrekamark hér fyrir neðan.

Klippa: Sporðdrekamark í þýska boltanum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×