Erlent

Hættir í kjöl­far um­mæla um banda­rísku kosningarnar

Atli Ísleifsson skrifar
Mart Helme hefur gegnt embætti innanríkisráðherra Eistlands síðustu mánuði.
Mart Helme hefur gegnt embætti innanríkisráðherra Eistlands síðustu mánuði. AP

Mart Helme, innanríkisráðherra Eistlands og meðlimur hægri öfgaflokksins Ekre, hefur sagt af sér embætti í kjölfar umræðu um orð sem hann lét falla í lok síðustu viku þar sem hann efaðist um sigur Joes Biden í bandarisku forsetakosningunum.

Sonur Helme, fjármálaráðherrann Martin Helme, hefur lýst yfir stuðningi við orð föður síns, en Mart Helme sagði í útvarpsviðtali um helgina að bandarísku kosningarnar hafi verið bæði ólýðræðislegar og einkennst af kosningasvindli.

Helme sagði svo í morgun að það séu „lygar“ í eistneskum fjölmiðlum sem fá hann nú til að segja af sér. Ekkert sem hann hafi sagt hafi ekki verið sagt áður í bandariskum fjölmiðlum. Hann ætli sér þó að segja af sér til að veita ríkisstjórn landsins starfsfrið, en að enginn muni fá hann til þegja um skoðanir sínar.

Í frétt finnska YLE segir frá því að varnarmálaráðherra Eistlands hafi minnst á að her Eistlands geri ráð fyrir að Bandaríkin tryggi landinu vernd. Helme telur þó að ummæli hans ógni ekki öryggi landsins.

Kersti Kaljulaid Eistlandsforseti, Jüri Ratas forsætisráðherra og Urmas Reinsalu utanríkisráðherra hafa öll óskað Joe Biden til hamingju með sigurinn í forsetakosningunum og fordæmt ummæli feðganna Helme.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×