Golf

Guðrún Brá úr leik á sögulegu móti í Sádi-Arabíu

Sindri Sverrisson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir slær boltann á mótinu í Sádi-Arabíu.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir slær boltann á mótinu í Sádi-Arabíu. LET/Tristan Jones

Guðrún Brá Björgvinsdóttir er stödd í Sádi-Arabíu þessa dagana þar sem hún spilar á tveimur mótum á Evrópumótaröðinni í golfi.

Þetta er í fyrsta sinn sem að konur leika á atvinnumannamóti í golfi í Sádi-Arabíu.

Guðrún er nú úr leik á fyrra mótinu en Íslandsmeistarinn lék fyrstu tvo hringina á 80 og 76 höggum, eða samtals 12 höggum yfir pari. 

Ekki hafa allir kylfingar lokið tveimur hringjum en Guðrún er sem stendur í 96. sæti og á ekki möguleika á að komast upp fyrir niðurskurðarlínuna, sem er í +5 höggum.

Efsti kylfingur af þeim sem komnar eru í hús er hin danska Emily Kristine Pedersen á 9 höggum undir pari.

Mótið heldur áfram um helgina og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Golf.

Leikið er á Royal Greens vellinum og þar fer einnig næsta mót fram en það hefst á þriðjudaginn. Í því móti er keppt í fjögurra kylfinga liðum, og fær einn áhugakylfingur að vera í hverju liði. Keppt verður bæði um liða- og einstaklingsverðlaun en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×