Enski boltinn

Mo Salah aftur jákvæður og verður áfram í Egyptalandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah er mikilvægur leikmaður fyrir Liverpool og liðið mun sakna hans.
Mohamed Salah er mikilvægur leikmaður fyrir Liverpool og liðið mun sakna hans. AP/Peter Byrne

Liverpool verður án eins síns besta leikmanns í næstu leikjum og er það enn eitt áfallið fyrir meiðslahrjáða Englandsmeistara. Mohamed Salah fékk aftur jákvæða niðurstöðu úr smitprófi.

Ferðalag Mohamed Salah til heimalandsins endaði ekki vel þegar leikmaðurinn greindist með kórónuveiruna sem hann fékk líklega í brúðkaupi bróður síns.

Smit Mohamed Salah greindist í prófi á vegum eypska knattspyrnusambandsins en hann gat af þeim sökum ekki spilað með landsliði sínu í undankeppni Afríkukeppninnar.

Mohamed Salah nú er búinn að fara í annað kórónuveirupróf út í Egyptalandi og því miður fyrir hann og Liverpool þá er hann enn með kórónuveiruna. Vonir voru til að hann kæmist til Englands ef niðurstaðan hefði verið neikvæð.

Salah greindist fyrst í síðustu viku en egypska knattspyrnusambandið hefur nú staðfest að leikmaðurinn hafi farið í annað smitpróf.

Salah er enn i Egyptalandi og kemst ekki heim til Liverpool strax þar sem hann þarf að vera áfram í einangrun.

Salah mun væntanlega missa af næstu tveimur leikjum Liverpool liðsins sem eru deildarleikur á móti Leicester City á sunnudaginn kemur og svo leikur á móti Atalanta í Meistaradeildinni 25. nóvember.

„Ég vil þakka öllum fyrir stuðninginn og kveðjurnar. Ég hef fulla trú á því að ég komist aftur inn á völlinn sem fyrst,“ skrifaði Mohamed Salah á samfélagsmiðla sína.

Mohamed Salah hefur verið í byrjunarliði Liverpool í öllum átta deildarleikjunum til þessa og hefur skorað í þeim átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×