Fótbolti

„Skoraði bara fjögur því þú tókst mig af velli“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Håland fer af velli og hinn ungi og bráðefnilegi Youssoufa Moukoko kemur inn á.
Håland fer af velli og hinn ungi og bráðefnilegi Youssoufa Moukoko kemur inn á. Clemens Bilan/Getty Images

Erling Braut Håland var frábær er Dortmund vann 5-2 sigur á Hertha Berlín á útivelli í þýsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Håland skoraði fjögur af fimm mörkum Dortmund en hann fékk svo heiðursskiptingu á 85. mínútu er Lucien Favre, stjóri Dortmund, ákvað að taka hann út af.

Eftir leikinn sagði hinn tvítugi Norðmaður að Favre hafi einfaldlega spurt hann hversu mörg mörk hann skoraði í leiknum því hann vissi það ekki.

„Í alvörunni þá spurði hann hversu mörg mörk ég skoraði. Hann spurði hvort að ég hafi skorað þrjú en ég svaraði að ég hafi bara skorað fjögur því hann tók mig út af,“ sagði Håland léttur.

„Svo ég er dálítið pirraður út í hann en svona er þetta,“ sagði norski framherjinn og hló.

Dortmund er í öðru sætinu í Þýskalandi, einu stigi á eftir toppliði Bayern Munchen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×