Erlent

„Þetta verður ekki þriðja kjörtímabil Obama“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Joe Biden tekur við stjórnartaumunum í Hvíta húsinu þann 20. janúar næstkomandi.
Joe Biden tekur við stjórnartaumunum í Hvíta húsinu þann 20. janúar næstkomandi. Getty/Mark Makela

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, segir að komandi kjörtímabil hans í Hvíta húsinu verði „ekki þriðja kjörtímabil Obama.“ Hann lofar því að ríkisstjórn hans endurspegli bandarísku þjóðina sem og Demókrataflokkinn.

Þetta kom fram í viðtali sem Lester Holt, fréttamaður NBC, tók við Biden í gærkvöldi en um var að ræða fyrsta viðtalið sem Biden veitir síðan hann var kjörinn forseti í byrjun nóvember.

Biden hefur undanfarna daga kynnt þá sem munu taka sæti í ríkisstjórn hans en þar má finna allnokkra sem voru áberandi þegar Barack Obama gegndi embætti forseta.

Holt spurði Biden hvað hann segði við þá sem veltu því fyrir sér hvort hann væri ekki bara að búa til þriðja kjörtímabil Obama.

„Þetta verður ekki þriðja kjörtímabil Obama. Við stöndum frammi fyrir allt öðrum veruleika en við gerðum undir Obama-Biden. Trump forseti hefur breytt landslaginu,“ sagði Biden.

Þá lýsti hann því markmiði að ríkisstjórnin endurspegli allt litróf bandarísku þjóðarinnar og allt litróf Demókrataflokksins.

Aðspurður hvort hann myndi íhuga að skipa jafnvel Repúblikana sem hefði kosið Donald Trump svaraði Biden játandi.

„Ég vil að þessi þjóð verði sameinuð,“ sagði hann.

Þótt Trump hafi ekki enn viðurkennt ósigur hófst valdaskiptaferlið formlega í vikunni. Biden sagði starfslið Trumps hafa verið „einlægt“ í sinni vinnu við ferlið.

„Þetta hefur ekki verið slæmt hingað til og ég býst ekki við að það verði það,“ sagði Biden.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×