Erlent

Þriggja daga þjóðarsorg í Argentínu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Aðdáendur um allan heim hafa minnst Maradona í dag. 
Aðdáendur um allan heim hafa minnst Maradona í dag.  Getty/Ivan Romano

Stjórnvöld í Argentínu hafa lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg eftir fráfall knattspyrnugoðsagnarinnar Diego Maradona. Aðdáendur Maradona í Argentínu og um víða veröld hafa syrgt kappann frá því að fréttir bárust af andláti hans í dag.

Alberto Fernandes, forseti Argentínu, er meðal þeirra fjölmörgu sem minnast hans í dag. „Þú lyftir okkur á hæstu tinda veraldar og færðir okkur ómælda hamingju. Þú varst mestur allra. Takk fyrir að hafa verið með okkur Diego. Við söknum þín úr lífi okkar,“ skrifaði Fernandes á Twitter.

Í Argentínu hefur Maradona löngum verið hylltur sem „El Dios“ eða „Guðinn.“ Á götum Buenos Aires hefur í dag víða mátt sjá kveðjur og minningarorð um kappann og mátti sjá orðin „Takk Diego“ víða á skiltum lestarstöðva.

Fráfall knattspyrnuhetjunnar virðist snerta argentínsku þjóðina djúpt en blaðamaðurinn Guillermo Andino komst við er hann greindi frá andláti Maradona í sjónvarpinu í dag líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×