Enski boltinn

Klopp vonast til að Wijnaldum verði áfram

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Á góðri stundu.
Á góðri stundu. vísir/Getty

Stuðningsmenn Liverpool bíða í ofvæni eftir fréttum af samningamálum Georginio Wijnaldum sem er á síðasta ári samnings síns við ensku meistarana.

Það þýðir að félög frá öðrum löndum en Englandi geta hafið viðræður við kappann þegar nýtt ár gengur í garð.

„Ég get ekki sagt mikið um það. Ég yrði ánægður ef hann verður áfram hjá okkur. Ég er nokkuð ánægður með hann eins og þið getið vanalega séð þegar ég stilli upp byrjunarliðinu mínu,“ sagði Klopp þegar hann var spurður út í framtíð Wijnaldum.

Þessi hollenski miðjumaður hefur verið algjör lykilmaður í uppgangi Liverpool á undanförnum árum eftir að hafa gengið í raðir félagsins frá Newcastle sumarið 2016.

„Hann spilar alltaf vel. Þess vegna hefur hann spilað svo mikið síðan hann kom hingað. Ég man ekki eftir mörgum slæmum leikjum hjá honum,“ segir Klopp.

„Hann hefur leyst margar stöður hjá okkur og sem betur fer er að hann spila vel núna. Megi það endast sem lengst. Á meðan ekkert er ákveðið getur allt gerst en ég er vongóður,“ segir Klopp.

Vitað er af áhuga spænska stórveldisins Barcelona og eflaust eru mörg önnur af stóru liðum Evrópu sem fylgjast grannt með gangi mála hjá þessum þrítuga Hollending.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×