Enski boltinn

Cavani gæti farið í bann vegna skrifa á Instagram

Sindri Sverrisson skrifar
Edinson Cavani skoraði tvö lagleg mörk fyrir Manchester United gegn Southampton en gæti verið í vandræðum vegna þess sem hann skrifaði í Instastory eftir leik.
Edinson Cavani skoraði tvö lagleg mörk fyrir Manchester United gegn Southampton en gæti verið í vandræðum vegna þess sem hann skrifaði í Instastory eftir leik. Getty/Matthew Peters og skjáskot/@cavaniofficial21

Enska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að taka til skoðunar skrif Edinson Cavani, hetju Mancheser United í sigrinum á Southampton í gær, á Instagram.

Cavani kom inn á sem varamaður og skoraði tvö mörk fyrir United í 3-2 sigrinum gegn Southampton.

Eftir leikinn setti Cavani inn skilaboð í Instagram Story svaraði hann fylgjanda sem óskað hafði honum til hamingju með frammistöðuna, með orðunum „gracias negrito!“.

Spænska orðið „negrito“ getur verið notað með niðrandi hætti. Samkvæmt frétt BBC kveðst Cavani aðeins hafa meint vel með því sem hann skrifaði. Svona sé orðið notað í Úrúgvæ en þaðan er þessi 32 ára framherji.

Verði Cavani fundinn sekur um mismunun eða kynþáttaníð mun aganefnd enska knattspyrnusambandsins úrskurða hann í að lágmarki þriggja leikja bann.

Sama orð og Suárez fékk átta leikja bann vegna

Eftir að Cavani var bent á hvernig skrif hans gætu verið túlkuð í Bretlandi eyddi hann færslunni.

Orðið „negrito“ er það orð sem Luis Suárez, landi Cavanis, notaði gagnvart Patrice Evra í leik á milli Liverpool og Manchester United árið 2011. Suárez vildi þá meina að hann hefði notað orðið af kærleika en ekki verið með kynþáttaníð, en hann fékk átta leikja bann.


Tengdar fréttir

Vara­maðurinn Ca­vani lykillinn að endurkomu United

Manchester United virðist hafa fundið upp tímavél en liðið kom til baka eftir að hafa lent 2-0 undir gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölur 3-2 þökk sé ótrúlegri innkomu Edinson Cavani.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×