Erlent

Fannst van­nærður heima hjá móður sinni eftir þrjá ára­tugi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konan og sonur hennar eru búsett í Stokkhólmi.
Konan og sonur hennar eru búsett í Stokkhólmi. Vísir/Getty

Kona í Stokkhólmi er sögð hafa haldið syni sínum læstum inni í íbúð sinni í borginni í þrjá áratugi.

Sonurinn, sem nú er á fimmtugsaldri, fannst liggjandi á gólfi íbúðarinnar og var fluttur á sjúkrahús. Sænska dagblaðið Aftonbladet greinir frá málinu í kvöld.

Sonurinn var mjög vannærður þegar hann fannst og í hann vantaði allar tennur, að því er segir í frétt Aftonbladet. Þá hafi málþroski hans virst lélegur og líkami hans þakinn áverkum. Hann var fluttur á sjúkrahús, þar sem hann gekkst undir aðgerð, eftir að skyldmenni gerði lögreglu viðvart. Móðir mannsins var ekki heima þegar ábendingin barst.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins var íbúðin í slæmu ástandi en maðurinn er sagður hafa fundist liggjandi á teppi á miðju gólfi. 

Aftonbladet hefur eftir heimildarmönnum sínum að móðurinni hafi verið sjúklega annt um öryggi sonar síns. Hún hafi haldið honum úr skóla frá því hann var barn. Skyldmenni sem Aftonbladet ræðir við grunar að manninum hafi verið haldið í íbúðinni síðan, í allt að þrjá áratugi. Þá hefur blaðið eftir heimildum sínum að málið sé rannsakað sem frelsissvipting.

Uppfært 2.12.2020:

Konan er ekki lengur grunuð um saknæmt athæfi. Ekkert þykir benda til þess að manninum hafi verið haldið föngnum í íbúðinni. Sjá nánar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×