Enski boltinn

Terry gæti fengið starfið sem Rooney dreymir um

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gömlu félagarnir í enska landsliðinu, Wayne Rooney og John Terry, berjast um stjórastöðuna hjá Derby County.
Gömlu félagarnir í enska landsliðinu, Wayne Rooney og John Terry, berjast um stjórastöðuna hjá Derby County. getty/PA Images

John Terry, aðstoðarþjálfari Aston Villa, hefur augastað á stjórastarfinu hjá Derby County, botnliði ensku B-deildarinnar.

Terry þykir líklegur til að taka við Derby þegar nýir eigendur frá verða búnir að kaupa félagið. Fjársterkir meðlimir konungsfjölskyldunnar í Abú Dabí ætla að kaupa meirihluta í Derby.

Wayne Rooney hefur stýrt Derby síðan Philipp Cocu var látinn taka pokann sinn um miðjan nóvember og hefur áhuga á að taka við liðinu til frambúðar.

Terry hefur mikinn áhuga á að reyna sig sem stjóri og gæti farið sömu leið og vinur hans, Frank Lampard, sem hóf stjóraferilinn hjá Derby áður en hann tók við Chelsea.

Terry hefur verið aðstoðarþjálfari Deans Smith hjá Aston Villa undanfarin tvö ár.

Derby hefur farið skelfilega af stað á tímabilinu og aðeins unnið einn af fyrstu fjórtán leikjum sínum í ensku B-deildinni. Næsti leikur liðsins er gegn Coventry City í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×