Innlent

Sótt­varna­að­gerðir séu ekki meira í­þyngjandi fyrir í­þrótta­menn en aðra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundinum í dag.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundinum í dag. Almannavarnir

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, minnti á það á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag að þær sóttvarnaaðgerðir sem gripið hefur verið til hérlendis vegna kórónuveirufaraldursins séu ekki meira íþyngjandi fyrir íþróttamenn heldur en aðra.

Töluvert mikillar óánægju hefur gætt á meðal íþróttafólks undanfarið vegna þess að æfingar og keppnir fullorðinna eru með öllu bannaðar.

Hefur til dæmis verið bent á það að íþróttir séu stundaðar í löndunum í kringum okkur og þá hefur frjálsíþróttafólk bent á að auðvelta sé að viðhafa ítrustu sóttvarnaráðstafanir í einstaklingsíþróttum.

Þórólfur svaraði þessari gagnrýni á fundinum í dag.

„Því er til að svara að þær aðgerðir sem hafa verið hér í gangi undanfarið eru íþyngjandi fyrir nánast alla íbúa þessa lands. Þær hafa verið mjög íþyngjandi fyrir skólakerfið, aðila sem hafa atvinnu sína af ferðamennsku, alla listamenn landsins, einstaklinga í einyrkjastarfsemi, krár og skemmtistaði, verslanir, veitingastaði, sund- og líkamsræktarstaði og svo mætti lengi telja. Það er því ekki hægt að segja að aðgerðirnar hafi verið eitthvað sérstaklega meira íþyngjandi fyrir íþróttastarfsemi heldur en ofangreinda starfsemi og ég held að það sé hollt að hafa það í huga. Hins vegar hef ég fullan skilning á óþreyju íþróttamanna að hefja aftur æfingar og keppni og vonandi getur það gerst í náinni framtíð,“ sagði Þórólfur.

Þá bætti hann við að það væri líka gott að hafa í huga að allar þessar íþyngjandi aðgerðir hefðu skilað því að tekist hefði að halda faraldrinum niðri.

„Og erum núna með lægstu tíðni Covid-19 í Evrópu. En eins og áður hefur komið fram er alltaf verið að skoða hvort hægt sé að aflétta aðgerðum en vissulega eru skoðanir á því mismunandi en við munum reyna að feta þetta einstigi eins vel og við getum, að halda faraldrinum niðri og hafa eins lítið íþyngjandi aðgerðir í gangi eins og mögulegt er,“ sagði Þórólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×