Handbolti

„Sautján ára ég hefði lík­lega hætt í hand­bolta í þessu á­standi“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jóhann Gunnar Gunnarsson segir að núverandi ástand megi ekki vara lengur yfir.
Jóhann Gunnar Gunnarsson segir að núverandi ástand megi ekki vara lengur yfir. SKJÁSKOT STÖÐ 2

Fyrrum handboltamaður segir að hann hefði líklega hætt í handbolta hefði hann lent í slíku æfinga- og keppnisbanni eins og nú stendur yfir.

Jóhann Gunnar Einarsson, grunnskólakennari - fyrrum handboltamaður og núverandi spekingur Seinni bylgjunnar, segir að hann hefði líklega hætt í handbolta sem sautján ára piltur ef ástandið væri eins og það er í dag.

Börn fædd 2004 og fyrr hafa mátt æfa frá lok októbers en börn eldri en sextán ára sem og fullorðnir hafa verið í æfinga- og keppnisbanni frá því í byrjun október. Margt íþróttafólk hefur tjáð óánægju sína.

Jóhann Gunnar gerði garðinn frægan með m.a. Aftureldingu og Fram en hann segir að æfinga- og keppnisbannið sé ekki að hjálpa ungum börnum. Hann segir að það séu ekki bara æfingarnar, heldur einnig félagsskapurinn.

„17 ára ég hefði líklega hætt í handbolta í þessu ástandi. Endaði ekkert sem stjarna.. en sjálfsaginn var lítill á þessum aldri og var í þessu mikið fyrir félagsskapinn. Hefði allavega verið hrikalega erfitt að byrja aftur. Ég er team Þórólfur og allt það en þetta má ekki vera lengra,“ sagði Jóhann Gunnar á Twitter-síðu sinni.

Í gær bárust svo fréttir af því að afreksíþróttafólk sem væri að undirbúa sig fyrir alþjóðleg mót fengi að æfa. Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, staðfesti það í samtali við RÚV en hann vonaðist einnig eftir að liðkað yrði fyrir þá sem eldri eru.

Handboltinn hefur verið á ís síðan í byrjun október líkt og allar íþróttir landsins. Einungis náðist að leika fjórar umferðir í Olís-deild karla tímabilið 2020/2021 áður en allt var stöðvað. Fyrrum félag Jóhanns, Afturelding, er á toppi deildarinnar með sjö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×