„Þetta var bara eins og að vera í himnaríki. Ef himnaríki er svona þá væri bara í lagi að fara strax,“ segir RAX.
Í nýjasta þættinum af RAX Augnablik segir ljósmyndarinn söguna á bak við myndina hans frægu af Kristni fjallkóngi. Aðstæðurnar á þessu augnabliki voru nefnilega ekki fullkomnar þó að myndin hafi heppnast fullkomlega. Þátturinn í heild sinni er í spilaranum hér fyrir neðan.
Aldrei bölvað eins mikið
„Það var ein mynd sem ég vildi ná og vildi alls ekki missa af, það var þegar þeir sundriðu Eystri Rangá. Þetta var svona líklega í síðasta skipti sem það var gert, svo kom brú og þeir þurftu ekki að reka yfir ána lengur. Þannig að þetta var eiginlega síðasti séns.“
RAX hafði ætlað að bíða í flotbúningi úti í á eftir að Kristinn og hópurinn færu þar yfir, en það plan fór út um gluggann. Ástæðan var að Árni Johnsen samstarfsfélagi hans vildi stoppa á leiðinni til að taka bensín.
„Ég held að ég hafi aldrei bölvað eins mikið,“ segir RAX um augnablikið þegar þeir komu að ánni. Adrenalínið spilaði svo stórt hlutverk í atburðarásinni sem fylgdi í kjölfarið.
Hægt er að hlusta á söguna í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. RAX Augnablik eru örþættir og Sundreið í Rangá er um fjórar mínútur að lengd.
Skrautleg fyrstu kynni
Myndir RAX af fjallkónginum birtust meðal annars í bókinni Fjallaland og urðu til þess að mikil aðsókn var í að fara með í smalamennsku á Landmannaafrétti. Áður hafði verið erfitt að ná saman mannskap en allt í einu var ástandið þannig að færri komust að en vildu. Myndin af Kristni fjallkóngi á sundreið í Rangá þykir einkennandi fyrir þennan merkilega mann.
Í níunda þætti af RAX Augnablik sagði ljósmyndarinn frá því þegar hann hitti fjallkónginn í fyrsta skipti. Þrátt fyrir að hafa sett allt í uppnám við að reyna að ná góðri mynd, var RAX fljótt fyrirgefið og er hann nú einn af hópnum. Í áratugi hefur hann slegist í för með hópnum og ljósmyndað leitirnar við allar hugsanlegar aðstæður hvort sem er í hríð, úrhelli eða um sólbjartan dag.
„Þegar maður fer á fjöll með þeim þá þarf maður eiginlega að klípa sig til að athuga hvort maður sé á lífi, þetta er svo stórkostlegt líf að vera á fjöllum með þeim.“
Hægt er að horfa á þáttinn Komið af fjöllum í spilaranum hér fyrir neðan.
Í þáttunum RAX AUGNABLIK segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson sögurnar á bak við margar af sínum þekktustu myndum. Ragnar hefur starfað á vettvangi í meira en fjörutíu ár og eru sögurnar hans ævintýralegar. Nýr þáttur kemur út á hverjum sunnudegi hér á Vísi og á Stöð 2 Maraþon. Hægt er að sjá alla þættina HÉR á Vísi.