Enski boltinn

Arteta fær stuðningsyfirlýsingu: „Er að gera frábæra hluti og ég sé bjarta og fallega framtíð“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikel Arteta hefur um nóg að hugsa þessa dagana.
Mikel Arteta hefur um nóg að hugsa þessa dagana. getty/Catherine Ivill

Þrátt fyrir verstu byrjun Arsenal í 46 ár segir Edu, tæknilegur stjórnandi félagsins, að Mikel Arteta sé að gera frábæra hluti og eigi sér bjarta og fallega framtíð sem knattspyrnustjóri.

Arsenal tapaði fyrir Burnley, 0-1, á sunnudaginn. Þetta var fjórða tap liðsins í deildarleik á heimavelli í röð sem hefur ekki gerst síðan 1959. Arsenal er í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með þrettán stig eftir tólf leiki.

Arteta hefur nú fengið stuðningsyfirlýsingu frá Edu, tæknilegum stjórnanda Arsenal. Stundum fylgir uppsögn fljótlega eftir slíka stuðningsyfirlýsingu en Edu virðist allavega hafa trú á Arteta. 

„Mikel er að gera frábæra hluti. Það er eðlilegt og auðvelt að horfa bara á úrslitin. En ég sé framtíðina, hvert við erum að fara og hvað við erum að byggja upp á hverjum degi,“ sagði Edu.

„Allt er á réttri leið. Hversu margir ungir leikmenn hafa fengið tækifæri og nýtt það? Ég sé bjarta og fallega framtíð. Það er skrítið að segja það núna en ég verð að vera sanngjarn. Þannig sé ég hlutina.“

Arteta tók við Arsenal fyrir ári og stýrði liðinu til sigurs í ensku bikarkeppninni á síðasta tímabili.

Næsti leikur Arsenal er gegn Southampton á heimvelli annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×