Enski boltinn

Stutt gaman og áhorfendur aftur bannaðir í London

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hvar er Valli? Allavega ekki í Alexandra höllinni frá og með morgundeginum.
Hvar er Valli? Allavega ekki í Alexandra höllinni frá og með morgundeginum. getty/Alex Burstow

Vegna aukins fjölda kórónuveirusmita verður áhorfendum aftur óheimilt að mæta á íþróttaviðburði í London. Þetta á meðal annars við um heimsmeistaramótið í pílukasti.

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, staðfesti í gær að frá og með miðvikudeginum yrði London fært á stig þrjú, það er hæsta viðbúnaðarstig vegna kórónuveirufaraldursins.

Ekki er langt síðan London var fært á stig tvö sem þýddi að allt að tvö þúsund áhorfendur máttu mæta á íþróttaviðburði í höfuðborginni.

Það entist hins vegar stutt vegna aukins fjölda kórónuveirusmita í London og nágrenni. Frá og með miðvikudeginum verða áhorfendur því ekki heimilaðir á íþróttaviðburðum.

Þetta hefur meðal annars áhrif á HM í pílukasti sem hefst í dag. Áhorfendur mega mæta í Alexandra höllinni í dag en síðan ekki aftur fyrr en London verður fært aftur á stig tvö.

Þá verða engir áhorfendur á heimaleikjum Arsenal, Fulham og West Ham United í ensku úrvalsdeildinni á næstu dögum.

Eini leikurinn í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar sem fer fram með áhorfendur í stúkunni er stórleikur Liverpool og Tottenham annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×