Enski boltinn

Bara væl í Jürgen Klopp að mati Jose Mourinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk haltrar af velli á móti Everton með slitið krossband.
Virgil van Dijk haltrar af velli á móti Everton með slitið krossband. Getty/Andrew Powell

Jose Mourinho gerði lítið úr meiðslavandræðum Liverpool liðsins á blaðamannafundi fyrir leik liðanna í kvöld.

Það eru bara ein stór meiðsli hjá Liverpool ef marka má orð Mourinho, knattspyrnustjóra Tottenham en tvö efstu lið ensku úrvalsdeildarinnar mætast á Anfield í kvöld.

Mourinho hélt því fram á blaðamannafundi í gær að einu meiðslin hjá Liverpool sem væri ástæða til að ræða um væri þau hjá hollenska miðverðinum Virgil Van Dijk.

Virgil Van Dijk sleit krossband í byrjun leiktíðar og spilar væntanlega ekki meira á tímabilinu.

„Öll lið lenda í meiðslum við og við. Liverpool hefur ein stór meiðsli og það eru meiðsli Van Dijk,“ sagði Jose Mourinho.

„Meiðsli eru eðlileg. James Milner er meiddur, [Erik] Lamela er meiddur,“ sagði Mourinho.

Auk meiðsla Van Dijk og Milner þá verður Jürgen Klopp án þeirra Joe Gomez, Diogo Jota, Kostas Tsimikas, Thiago Alcantara og Xherdan Shaqiri í leiknum á móti Tottenham auk þess að þeir Naby Keita og Joel Matip eru tæpir fyrir leikinn.

„Ég held að Alisson sé ekki meiddur. [Trent] Alexander-Arnold er ekki meiddur. Matip, ég held að hann muni spila. Fabinho er ekki meiddur. [Andrew] Robertson er ekki meiddur. [Jordan] Henderson er ekki meiddur. [Georginio] Wijnaldum er ekki meiddur. [Mohamed] Salah er ekki meiddur, [Roberto] Firmino er ekki meiddur, [Sadio] Mane er ekki meiddur,“ taldi Jose Mourinho upp.

„Van Dijk er meiddur og Van Dijk er auðvitað mjög góður leikmaður. Látið mig hins vegar fá meiðslalista Liverpool og berið hann saman við besta liðið hjá Liverpool,“ sagði Mourinho.

„Ég get talið upp tíu meiðsli hjá Tottenham. Það eru tveir krakkar í sextán ára liðinu meiddur, aðrir tveir í 21 árs liðinu glíma við meiðsli sem og tveir í 23 ára liðinu. Svo eru þeir Lamela og [Japhet] Tanganga meiddir. Þarna eru við komnir með tíu manna lista,“ sagði Mourinho.

„En er [Hugo] Lloris meiddur? Nei. [Toby] Alderweireld meiddur? Nei. [Eric] Dier meiddur? Nei.[Sergio] Reguilon meiddur? Nei. Harry Kane meiddur? Nei. Son [Heung-min] meiddur? Nei. Lucas [Moura] meiddur? Nei. Svo hvar eru meiðslin,“ spurði Jose Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×