Á vef Veðurstofunnar segir að áfram sé hætta á vatnsflóðum og skriðuföllum. Mikið álag er á fráveitukerfi og miklar líkur á vatnstjóni. Eins og fram hefur komið er hættustig á Seyðisfirði vegna skriðufalla og óvissustig annars staðar á Austfjörðum.
Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að næsti einn og hálfi sólarhringur verði krítískur því spáð er áframhaldandi talsverðri rigningu á Austfjörðum.
Stór skriða féll síðdegis í gær úr Botnabrún utan við Nautaklauf á Seyðisfirði og olli tjóni. Nokkur hús voru rýmd undir Botnabrún í innri hluta bæjarins. Þar eru rýmingar enn í gildi, en fólk hefur fengið að fara í húsin sín undir eftirliti til þess að sækja nauðsynjar.
Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu er gert ráð fyrir að rýming verði áfram í gildi fram á morgundaginn að minnsta kosti.