Erlent

Fílsunga bjargað með hjartahnoði eftir mótorhjólaslys

Samúel Karl Ólason skrifar
Fíl bjargað

Sjúkraflutningamaðurinn Mana Srivate hefur gert fjölda endurlífgunartilrauna á 26 ára ferli sínum í starfi í Taílandi. Nú á sunnudaginn gerði hann það þó í fyrsta sinn á fílsunga og bjargaði hann lífi dýrsins.

Fílsunginn hafði hlaupið út á veg og í veg fyrir mann á bifhjóli. Hann keyrði á ungann, sem lenti í hjartstoppi. Á meðan aðrir önnuðust manninn á bifhjólinu stökk Mana til og reyndi endurlífgunartilraunir á fílsunganum.

Það heppnaðist og náði fílsunginn meðvitund aftur.

Myndband af atvikinu hefur farið eins og eldur í sinu um Taíland.

Í samtali við blaðamann Reuters segir Mana að það að bjarga lífum sé í eðli hans. Hann hafi heyrt í móður fílsungans og annarra fíla kalla á ungan og því hafi hann haft áhyggjur af honum.

Hann giskaði á hvar hjarta ungans væri, út frá myndbandi sem hann hafði séð á netinu, og eftir um tíu mínútna hjartahnoð vaknaði fíllinn aftur. Hann var svo staðinn upp eftir um tíu mínútur.

Hann var svo fluttur til frekari meðhöndlunar. Eftir það var fílsunginn svo fluttur aftur á sama stað og segir Mana að móðir hans hafi fundið hann á nýjan leik.

Bæði fílsunginn og maðurinn á bifhjólinu munu ekki hljóta varanlegan skaða af atvikinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×