Körfubolti

NBA-deildin snýr aftur „heim“ á Stöð 2 Sport | Veisla á jóla­dag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Steph Curry og Kevin Durant eru búnir að jafna sig af meiðslum sem héldu þeim utan vallar allt síðasta tímabil. Þeir ætla sér stóra hluti í vetur.
Steph Curry og Kevin Durant eru búnir að jafna sig af meiðslum sem héldu þeim utan vallar allt síðasta tímabil. Þeir ætla sér stóra hluti í vetur. Sarah Stier/Getty Images

NBA-deildin í körfubolta snýr aftur heim á Stöð 2 Sport um jólin. Sýndur verður fjöldi leikja í beinni útsendingu þann 25. desember, jóladag. Síðan verður sýnt jafnt og þétt frá þessari bestu körfuboltadeild í heimi í allan vetur.

Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi Dominos Körfuboltakvölds og körfuboltaunnandi með meiru tilkynnti þetta í Sportpakka Stöðvar 2 fyrr í kvöld. Sjá má viðtalið í spilaranum hér að neðan.

„Þetta er mjög spennandi. Það má segja að NBA sé komið aftur heim því Stöð 2 var ein af fyrstu stöðunum í heiminum utan Bandaríkjanna til að sýna beint frá NBA-deildinni. Held hún hafi verið þriðja utan Bandaríkjanna,“ sagði Kjartan Atli um endurkomu NBA-deildarinnar hingað til lands.

„Fyrstu leikirnir verða sýndir á jóladag. Það verða ansi margir leikir og nóg um að vera. Við byrjum á fyrsta leik klukkan fimm á íslenskum tíma og svo heldur veislan áfram. Svo höldum við áfram á laugardag og sunnudag þannig þetta verða körfuboltajól.“

„Við fylgjumst með í allan vetur og það verða tveir leikir í viku. Maður upplifir það eins og deildin sé farin að horfa meira til Evrópu og umheimsins. Það eru fleiri leikir á betri tíma fyrir Evrópulöndin þannig að leikirnir eru á betri tíma en þeir voru hérna áður fyrr. Maður þarf samt að vera pínu nátthrafn ef maður ætlar að vera alvöru NBA-aðdáandi,“ sagði Kjartan Atli að lokum.

Klippa: NBA snýr aftur heim



Fleiri fréttir

Sjá meira


×