Íslenski boltinn

„Íslenska landsliðið er ekki þjálfarabúðir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson var þjálfari U-21 árs landsliðsins áður en hann tók við karlalandsliðinu.
Arnar Þór Viðarsson var þjálfari U-21 árs landsliðsins áður en hann tók við karlalandsliðinu. vísir/bára

Henry Birgir Gunnarsson er ekki viss um að Arnar Þór Viðarsson búi yfir nógu mikilli reynslu til að vera þjálfari íslenska karlalandsliðsins og segir að hann sé að taka of stórt stökk á þjálfaraferlinum.

Tveimur dögum fyrir jól var Arnar kynntur sem nýr landsliðsþjálfari. Hann gerði tveggja ára samning við KSÍ. Honum til aðstoðar verður Eiður Smári Guðjohnsen.

Ráðning Arnars var til umræðu í Sportinu í dag. Henry Birgir setur spurningarmerki við hana og er ekki viss hvort Arnar hafi lagt nógu mikið inn í reynslubankann fyrir landsliðsþjálfarastarfið.

„Ég hef trú á Arnari sem þjálfara en að því sögðu er íslenska landsliðið er ekki þjálfarabúðir. Sá sem á að stýra íslenska landsliðinu í fótbolta finnst mér að eigi að hafa mikla reynslu og hafa verið í þessu í langan tíma. Mér finnst að landsliðsþjálfari eigi ekki að sleppa svona mörgum tröppum á leiðinni og þurfi svo að læra sem landsliðsþjálfari,“ sagði Henry Birgir.

„Þetta er of stórt starf og mér finnst stökkið of stórt. Ég er ekki sammála þessari ráðningu þótt ég hafi trú á Arnari og held hann eigi eftir að spjara sig. Þú átt að gera mistökin og læra annars staðar en með karlalandsliðið. Ég vona að Arnari gangi frábærlega og held hann eigi eftir að verða aðsópsmikill þjálfari í framtíðinni en ég get ekki alveg kvittað upp á þetta.“

Kjartan Atli Kjartansson spurði Henry Birgi hvort Heimir Hallgrímsson hefði búið yfir meiri reynslu þegar hann tók við íslenska landsliðinu en Arnar núna.

„Heimir Hallgrímsson var útskrifaður úr landsliðsþjálfaraskóla Lars Lagerbäck,“ svaraði Henry Birgir.

„Lars bjó til þetta umhverfi sem hefur verið hérna og Heimir var hans hægri hönd og með honum og kunni þetta upp á tíu. Það var fullkomlega rökrétt framhald. Mér finnst vera stór munur á því.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×