Erlent

Lestar­sam­göngur röskuðust vegna syrgjandi svans

Atli Ísleifsson skrifar
Lestarsamgöngur milli Kassel og Göttingen röskuðust mikið og þurfti að fella niður um tuttugu ferðir vegna fuglsins syrgjandi.
Lestarsamgöngur milli Kassel og Göttingen röskuðust mikið og þurfti að fella niður um tuttugu ferðir vegna fuglsins syrgjandi. Lögregla í Kassel

Syrgjandi svanur olli því að lestarsamgöngur milli þýsku borganna Kassel og Göttingen röskuðust mikið í gærmorgun. Fella varð niður rúmlega tuttugu ferðir vegna fuglsins.

Svanurinn hafði komið sér fyrir við teinana í Fuldatal þar sem annar svanur hafði drepist. Neitaði svanurinn þannig að yfirgefa hlið maka síns þannig að á endanum þurfti að kalla til slökkvilið til að fjarlægja svaninn.

Lögreglan í Kassel greinir frá hinu sorglega atviki á heimasíðu sinni og birtir mynd af svaninum. Segir að parið hafi verið á flugi, í könnunarleiðangri, og að annar svananna hafi í einni vindhviðunni rekist í raflínur fyrir ofan teinana og drepist. Hinn svanurinn hafi svo komið sér fyrir við hlið maka síns og gefið lítið fyrir áhuga lesta að komast leiðar sinnar.

Slökkvilið var að lokum kallað á staðinn til að fjarlægja svanina, en höfðu til að byrja með ekki erindi sem erfiði. Eftir rúmlega klukkustunda stopp á lestaumferðinni var ákveðið að notast við sérstakan lyftara til að fjarlægja hræið. Hinn svanurinn er sagður ómeiddur og var að sögn lögreglu fluttur að ánni Fulda í nágrenninu.

Svanir halda jafnan tryggð við maka sinn ævilangt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×