Enski boltinn

Telja hægt að klára úrvalsdeildina á 40 dögum

Sindri Sverrisson skrifar
Liverpool var langefst í ensku úrvalsdeildinni þegar keppni var stöðvuð vegna kórónuveirufaraldursins.
Liverpool var langefst í ensku úrvalsdeildinni þegar keppni var stöðvuð vegna kórónuveirufaraldursins. VÍSIR/EPA

Forráðamenn félaganna í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta funduðu í gær og fóru yfir hvernig hægt yrði að klára tímabilið í deildinni. Þeir telja að hægt verði að klára tímabilið á 40 dögum.

Keppni í ensku úrvalsdeildinni var stöðvuð 13. mars vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Flest lið í deildinni eiga níu leiki eftir en fjögur þeirra eiga tíu leiki eftir. Alls eru 92 leikir eftir af tímabilinu og er ríkur vilji til þess að þeir verði allir spilaðir.

Búist var við því að félögin myndu ræða það í gær hvort 30. júní væri ekki síðasti mögulegi dagurinn til að spila á, en talið var of snemmt að ræða það mál í gær. Sá dagur er mjög mikilvægur því þá renna samningar sumra leikmanna út auk þess sem félögin eru með auglýsingasamninga við ýmis fyrirtæki sem renna út. Til að mynda ætti Liverpool að skipta úr New Balance í Nike. FIFA hefur verið að skoða leiðir til að framlengja samninga vegna kórónuveirufaraldursins.

Sky Sports segir hins vegar að eftir fundinn í gær sé ljóst að keppni í ensku úrvalsdeildinni geti í fyrsta lagi hafist 8. júní.

Ljóst er að keppni í ensku úrvalsdeildinni veltur á ákvörðunum stjórnvalda en á fimmtudag tilkynnti ríkisstjórnin að útgöngubann í landinu myndi gilda í þrjár vikur til viðbótar. Yfir 12.000 mannslát í Bretlandi má rekja til kórónuveirufaraldursins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×