Íslenski boltinn

„Guðjón var gríðarlega langt á undan sinni samtíð“

Sindri Sverrisson skrifar
Guðjón Þórðarson hefur náð mögnuðum árangri sem þjálfari.
Guðjón Þórðarson hefur náð mögnuðum árangri sem þjálfari. Nordic photos/AFP

Arnar Gunnlaugsson er einn hæfileikaríkasti leikmaður sem Guðjón Þórðarson hefur þjálfað og Arnar, sem sjálfur er orðinn þjálfari í dag, hrósar sínum gamla lærimeistara í hástert.

„Hann var einn sá allra besti,“ sagði Arnar þegar hann ræddi við Rikka G í Sportinu í kvöld á Stöð 2 Sport. Guðjón tók við ÍA um haustið 1990 og hafði þá gert KA að Íslandsmeistara ári fyrr. ÍA var þá í 1. deild og Arnar að hefja sinn meistarflokksferil, en Guðjón gerði Skagamenn að Íslandsmeisturum strax árið 1992. Hann vann titilinn einnig með ÍA árið 1993 og svo árið 1996 eftir að hafa stýrt KR í millitíðinni.

„Guðjón var gríðarlega langt á undan sinni samtíð þegar hann kom til okkar árið 1991. Við höfðum þá fallið niður árið 1990 og vorum að spila í 1. deildinni. Hann kom um haustið en á þessum tíma byrjuðu liðin ekkert að æfa skipulega fyrr en í janúar eða febrúar ár hvert. Hann byrjaði strax í október og við vorum væntanlega eitt af fyrstu liðunum á Íslandi til þess. Hann byrjaði með hlaup og læti, blóðmælingar og próf sem að enginn hafði kynnst áður. Svo bara fer Skaginn á flug,“ sagði Arnar, sem stýrði Víkingi R. til bikarmeistaratitils í fyrra.

„Guðjón var ekki bara góður í fitness heldur taktískt mjög sterkur. Hann setur leikmenn í ákveðnar stöður og breytir leikmönnum mjög mikið, fær til sín leikmenn eins og Óla Adolfs sem ég man eftir á fyrstu æfingu… gaurinn gat ekki neitt! Hann gat ekki rakið bolta til að bjarga lífi sínu. Luka Kostic kemur, frábær karakter, Kristján Finnbogason kemur frá KR sem frábær markvörður, en svo var líka ung kynslóð að koma upp á Skaganum og aðeins eldri kynslóð að springa út. Koma Guðjóns sem toppþjálfara setti punktinn yfir i-ið,“ sagði Arnar.


Tengdar fréttir

Kári hjálpaði mjög mikið úr stúkunni í bikarúrslitaleiknum

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings R. í fótbolta, fór ítarlega yfir bikarúrslitaleikinn við FH í fyrra þegar hann ræddi við Rikka G í Sportinu í kvöld. Kári Árnason hafði sín áhrif í sigri Víkinga þrátt fyrir að spila ekki.

Þekkti ekki tvíburana í sundur sem varð Arnari til happs

Arnar Gunnlaugsson segir að eftirminnilegasti leikur sinn sé fyrsti leikurinn með ÍA. Hann lék sinn fyrsta leik með Skagaliðinu gegn Keflavík árið 1989, einungis sextán ára gamall, en aðdragandinn var ansi áhugaverður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×