Enski boltinn

Philippe Coutinho var búinn að segja já við Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho fagnar einu af mörkum sínum fyrir Liverpool. Hann var almennt talinn vera besti leikmaður liðsins þegar hann var seldur.
Philippe Coutinho fagnar einu af mörkum sínum fyrir Liverpool. Hann var almennt talinn vera besti leikmaður liðsins þegar hann var seldur. Getty/Jan Kruger

Philippe Coutinho, fyrrum leikmaður Liverpool og nú í láni hjá Bayern München, hefði getað komið aftur í ensku úrvalsdeildina síðasta sumar.

Framtíð Brasilíumannsins virðist ekki vera í Barcelona þar sem spænska stórliðið teluir sig ekki hafa lengur not fyrir hann.

Það var líka ljóst í sumar þegar Barcelona var að reyna að losna við hann og endaði á því að lána hann til þýska liðsins Bayern München.

Spænska íþróttablaðið Sport fjallar um stöðu Philippe Coutinho í stórri grein en þar kemur fram að allt bendi til þess að Philippe Coutinho spili ekki með Barcelona á næstu leiktíð.

Sport hefur heimildir fyrir því að Tottenham hafi sóst eftir því að fá Philippe Coutinho til sín síðasta sumar og leikmaðurinn sjálfur hefði verið búinn að segja já.

Það náðust hins vegar ekki samningar á milli Barcelona og Tottenham en það gekk illa hjá Tottenham liðinu að ganga frá slíkum málum síðasta sumar. Spurs endaði á því að fá Giovani Lo Celso en missti af mönnum eins og Philippe Coutinho og Bruno Fernandes.

Sport segir að lið í ensku úrvalsdeildinni hafi áfram áhuga á Brasilíumanninum og svo gæti farið að Philippe Coutinho verði lánaður til liðs í deildinni í sumar. Það er í það minnsta miklu líklegra en að hann spili fyrir Barcelona tímabilið 2020-21.

Liverpool hefur oft verið nefnt til sögunnar en meiri líkur eru á því að Jürgen Klopp horfi til annarra og yngri leikmanna sem hafa verið að gera það gott í þýsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×