Enski boltinn

Liðfélagi Gylfa segir alla tilbúna til að spila fram í ágúst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Morgan Schneiderlin og Gylfi Þór Sigurðsson fagna marki með Everton.
Morgan Schneiderlin og Gylfi Þór Sigurðsson fagna marki með Everton. Getty/Tony McArdle

Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni vilja flestir klára tímabilið og ef það á að takast þá gæti tímabilið mögulega dregist í marga mánuði til viðbótar.

Enska úrvalsdeildin mun ekki byrja aftur fyrr en í fyrsta lagi í byrjun maímánaðar en deildin er staðráðin í því að klára leiktíðina í stað þess að flauta hana af vegna kórónuveirunnar.

Sumir leikmenn hafa samt smá áhyggjur af því að enska úrvalsdeildinni muni fara of snemma af stað og að það væri betra að spila frekar lengur.

Morgan Schneiderlin, liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton, er sannfærður um að allir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni séu tilbúnir að spila leikina þó að tímabilið færist fram á haustið.

Enska úrvalsdeildin er að skoða ýmsar sviðsmyndir til að ná að klára tímabilið en 1. júní er nú sá dagur sem er nefndur sem mögulegur upphafsdagur og markmiðið væri svo að klára tímabilið á sex vikum.

Everton er með það á sinni áætlun að hefja aftur æfingar 17. apríl næstkomandi eða eftir um 25 daga. Morgan Schneiderlin er hins vegar á því að það sé of snemmt og að allir á Englandi þurfi lengri tíma til að komast í gegnum þetta ástand.

„Yfirvöld munu taka bestu ákvörðunina í stöðunni. Fótboltinn er í öðru sæti og við þurfum öll að aðlagast breyttum aðstæðum,“ sagði Morgan Schneiderlin í viðtali við Mirror.

„Félagið hefur látið okkur vita að stefnan sé sett á að hefja æfingar aftur 17. apríl. Það finnst mér aðeins of snemmt. Við erum tilbúnir til að spila fram í ágúst sé þörf á því,“ sagði Schneiderlin.

„Ég veit að það getur orðið erfitt vegna samninga sumra leikmanna sem eru að renna út í lok júní. Ég vona að leikjum verði frestað aðeins lengur þannig að ég geti spilað aftur á þessu tímabili,“ sagði Schneiderlin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×