Enski boltinn

Segist enn elska Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Raheem Sterling fagnar marki sínu fyrir Liverpool á móti Newcastle United á Anfield í apríl 2015.
 Raheem Sterling fagnar marki sínu fyrir Liverpool á móti Newcastle United á Anfield í apríl 2015. Getty/Andrew Powell

Raheem Sterling var spurður hvort að hann gæti séð sig spila aftur fyrir Liverpool og svarið kom kannski mörgum á óvart.

Raheem Sterling hefur fengið óblíðar móttökur hjá stuðningsmönnum Liverpool síðan að hann fór frá félaginu fyrir fimm árum en hann hefur engu að síður enn sterkar tilfinningar til Liverpool.

Þetta kom vel fram í nýju viðtali þegar blaðamaðurinn forvitnaðist um tilfinningar Raheem Sterling til síns gamla félags sem honum lá svo á að yfirgefa þegar hann var ekki orðinn 21 árs gamall.

„Væri ég tilbúinn að fara til baka til Liverpool. Ef ég segi alveg eins og er þá elska ég Liverpool,“ sagði Raheem Sterling eins og sjá má hér fyrir ofan.

Raheem Sterling sló fyrst í gegn hjá Liverpool þar sem hann spilaði frá 2012 til 2015 eða frá því að hann var sautján ára til þess að hann var tvítugur

Raheem Sterling hafnaði því að framlengja samning sinn við Liverpool og yfirgaf Liverpool árið 2015. Brottför hans fór mjög illa í marga stuðningsmenn Liverpool sem fannst honum ekki sína félaginu þá virðingu sem það átti skilið.

Liverpool seldi hann til Manchester City fyrir 44 milljónir punda til að byrja með. Sú upphæð hækkaði síðan um fimm milljónir punda.

Ákvörðun Raheem Sterling hefur skilað honum mikilli velgengni og samstarf hans og Pep Guardiola gekk eins og í sögu.

Raheem Sterling hefur nefnilega vaxið og dafnað hjá Manchester City þar sem hann hefur skorað 89 mörk í 230 leikjum eftir að hafa skorað 23 mörk í 129 leikjum með Liverpool.

Sterling hefur á þessum tíma komist í hóp bestu leikmanna heims og hefur unnið sex titla með Manchester City þar af Englandsmeistaratitilinn 2018 og 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×