Erlent

Áhyggjur af öryggi forritsins Zoom

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
Miklar áhyggjur eru vegna öryggis Zoom, sem margir nota nú til fjarfunda í kórónuveirufaraldrinum. 
Miklar áhyggjur eru vegna öryggis Zoom, sem margir nota nú til fjarfunda í kórónuveirufaraldrinum.  Vísir/Getty

Vinsældir bandarísku myndsímtalsþjónustunnar Zoom hafa aukist allverulega frá því kórónuveirufaraldurinn hófst. Miklar áhyggjur eru þó af öryggi forritsins.

Skólar og vinnustaðir víða um heim styðjast um þessar mundir við Zoom og sambærilega þjónustu til að halda fjarfundi enda ekki æskilegt að hittast í stórum hópum á meðan faraldurinn ríður yfir. Bandaríska alríkislögreglan rannsakar nú tilkynningar um svokallað Zoom-bombing eða það þegar óprúttnir aðilar brjótast inn í myndsímtöl fólks sem hefur gleymt að læsa fundunum.

Slíkt hefur ítrekað komið upp að undanförnu og hafa tölvuþrjótarnir einna helst deilt hatursfullum skilaboðum. Zoom hefur brugðist við með því að segja þess háttar hegðun óboðlega.

„Hætta getur skapast ef notendur breyta sjálfgefnum stillingum en við mælum með að nota aðgangsorð og biðstofu. Þannig verjið þið fundina ykkar best. Önnur leið er að birta ekki opinberlega vefslóð ykkar fyrir fund,“ segir Janine Pelosi, markaðsstjóri Zoom.

Þetta er þó ekki eini vandinn sem plagar Zoom. Hundruð stolinna aðganga ganga kaupum og sölum á veraldarvefnum. Villur hafa uppgötvast sem gera tölvuþrjótum kleift að stela notendaupplýsingum og rannsóknir hafa sýnt að dulkóðun forritsins er veik. Þá hætti fyrirtækið að senda persónuleg gögn notenda til Facebook eftir að upp komst um það.

Vegna allra þessara vandamála hafa bandarískir öldungadeildarþingmenn farið fram á að Fjarskiptastofnun Bandaríkjanna taki fyrirtækið til rannsóknar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×