Á meðal þeirra sem létust í skotárás í smábænum Portapique í Kanada síðustu nótt var lögreglukonan Heidi Stevenson.
Í yfirlýsingu lögreglunnar í Nova Scotia kom fram að lögregla hafi verið kölluð á vettvang skotárásar þar sem morð höfðu verið framin og eldur hafði verið kveiktur.
Ljóst er að nokkrir eru látnir en lögregla kvaðst á blaðamannafundi ekki geta sagt til nákvæmlega um fjölda látinna og særðra en sagði að minnsta kosti tíu látna.
Árásarmaðurinn, hinn 51 árs Gabriel Wortman, flúði vettvang og keyrði um á bíl sem hannaður var til að líkjast lögreglubíl og var klæddur í lögreglubúning. Klæðnaður Wortman og ökutæki eru sögð benda til þess að Wortman hafi skipulagt morðin með einhverjum hætti.
Fram kom á blaðamannafundi að morðin hafi verið framin víða um svæðið.
Eftir mikla leit og eftirför fannst Wortman og var hann skotinn til bana af lögreglu á bensínstöð nærri borginni Halifax.
Höfðu íbúar Portapique verið beðnir um að halda sig heima á meðan að Wortman lék lausum hala.