Enski boltinn

Tuttugu leikmenn sem blómstruðu eftir að hafa yfirgefið enska boltann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luis Alberto náði ekki að vinna sér sæti í byrjunarliði Liverpool. Hann er í dag einn af bestu leikmönnum Lazio.
Luis Alberto náði ekki að vinna sér sæti í byrjunarliði Liverpool. Hann er í dag einn af bestu leikmönnum Lazio. vísir/getty

Það er langt frá því algilt að fótboltamenn slái í gegn í enska boltanum. The Guardian hefur tekið saman lista yfir leikmenn sem hafa blómstrað eftir að hafa yfirgefið England.

Listinn telur 20 leikmenn, einn frá hverju liði í ensku úrvalsdeildinni. Þar má m.a. finna spænska miðjumanninn Luis Alberto.

Hann spilaði aðeins tólf leiki fyrir Liverpool en hefur verið einn af lykilmönnum Lazio undanfarin ár. Alberto hefur lagt upp flest mörk allra í ítölsku úrvalsdeildinni í vetur.

Sænski miðjumaðurinn Kristoffer Olsson er einnig á listanum sem fulltrúi Arsenal. Hann lék aðeins 36 mínútur með aðalliði Arsenal en er í dag lykilmaður í liði Krasnodar sem er í 2. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar. Olsson leikur með Jóni Guðna Fjólusyni hjá Krasnodar.

Tveir markverðir eru á listanum; Pierluigi Gollini og Joel Robles. Gollini hefur slegið í gegn með Atalanta og lék sinn fyrsta landsleik fyrir Ítalíu síðasta haust. Hann kom til Atalanta frá Aston Villa þar sem honum var ekki treyst fyrir stöðu aðalmarkvarðar. Robles lék aðeins 65 leiki á fimm tímabilum með Everton en er núna aðalmarkvörður Real Betis.

Norski framherjinn Alexander Sørloth er einnig á listanum. Hann skoraði aðeins eitt mark í 20 leikjum fyrir Crystal Palace en er í dag markahæsti leikmaður tyrknesku úrvalsdeildarinnar. Í vetur hefur hann skorað nítján mörk í 26 leikjum fyrir Trabzonspor sem er á toppnum í Tyrklandi.

Grein the Guardian má lesa með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×