Innlent

Drengurinn fannst við Grábrók

Samúel Karl Ólason skrifar

Björgunarsveitir á Vesturlandi og höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út í dag vegna leitar að tíu ára dreng sem varð viðskila við fjölskyldu sína við Hreðavatn upp úr hádegi. Lögreglu og björgunarsveitum var gert viðvart á fjórða tímanum. Drengurinn fannst svo skömmu fyrir klukkan sex við gjallgíginn Grábrók og var hann heill á húfi.

Rúmlega 200 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni í kringum Hreðavatn þegar mest var. Þar að auki var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út. Henni var þó snúið við þegar drengurinn fannst.

Rúmlega 200 björgunarsveitarmenn komu að leitinni.Vísir/Jóhann

Fjörutíu leitarhópar voru myndaðir og var fyrst leitað í skóginum við vatnið vestanvert. Þar er mikið kjarrlendi, hraun og klettar. Farið var fótgangandi og á fjórhjólum og var notast við dróna og leitarhunda.

Ábendingar frá almenningi urðu til þess að leitinni varð beint norður fyrir vatnið í áttina að Bifröst. Þremur tímum seinna fannst drengurinn um fimm kílómetra frá þeim stað þar sem hann týndist.

Drengurinn var vel á sig kominn og glaður að sjá foreldra sína aftur að sögn Þórs Þorsteinssonar vettvangsstjóra hjá Landsbjörg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×