Skoðun

Andað léttara - en hvað með Icelandair Group?

Þórir Garðarsson skrifar

Tekjulítil og tekjulaus fyrirtæki í ferðaþjónustu anda léttara eftir að ríkisstjórnin kynnti björgunaraðgerðir sínar í gær. Án tekna voru fyrirtækin í þeirri klemmu að geta hvorki haft starfsfólk í vinnu né sagt því upp og greitt laun á samningsbundnum uppsagnartíma.

Útspil ríkisins leysir þennan hnút og fyrir þá framsýni ber að þakka.

Fyrir þá sem sagt verður upp störfum skiptir aðstoð ríkisins ekki síst miklu. Viðkomandi einstaklingar fá laun sín og orlof greidd að fullu á uppsagnartímanum.

Ekki síður er jákvætt að settar verða tímabundið einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Enginn vafi leikur á því að flestöll fyrirtæki í ferðaþjónustu munu nýta tímann sem framundan er til að hagræða og búa sig undir endurkomu ferðamanna. Það leiðir hugann að stöðu Icelandair Group.

Innan grúppunnar er ekki aðeins flugfélagið Icelandair, heldur einnig ferðaskrifstofurnar Vita og Iceland Travel, flugafgreiðslufyrirtækið IGS og viðhaldsfyrirtækið ITS. Til skamms tíma átti Icelandair Group einnig hótelkeðju.

Almenn sátt er um það að flugfélagið Icelandair er þjóðhagslega mikilvægt. Fyrir ferðaþjónustuna hefur Icelandair reynst akkerið. Rætt er um að gripið er til sértækra ráðstafana til að Icelandair lifi af hremmingarnar. En hvað með hin fyrirtækin innan grúppunnar? Nær sá stuðningur þá líka til þeirra? Þessi fyrirtæki starfa á öflugum samkeppnismarkaði, við önnur viðhaldsfyrirtæki, flugafgreiðslufyrirtæki og ferðaskrifstofur.

Hvar liggja mörkin? Er verið að hjálpa Icelandair eða Icelandair Group?

Til að gæta allrar sanngirni í núverandi aðstæðum er full ástæða til að skörp skil verði gerð á milli rekstrar flugfélagsins Icelandair og annarra fyrirtækja undir hatti grúppunnar. Engin ástæða er til að skapa tortryggni af hálfu samkeppnisaðila, hvað þá af hálfu skattgreiðenda.

Höfundur er stjórnarformaður Gray Line á Íslandi og hluthafi í Icelandair Group




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×