Sóttvarnalæknir segir að ákvarðanir stjórnvalda hér á landi um landamæralokanir og sóttkví ráði ekki einar framtíð ferðaþjónustunnar. Ákvarðanir annarra þjóða vegi þar jafnþungt. Ferðamennska í heiminum öllum sé í algjörum lamasessi og þar breyti afstaða íslenskra yfirvalda litlu.
Eins og staðan er núna er öllum þeim sem koma til landsins, bæði íslenskum ríkisborgurum og erlendum, skylt að fara í sóttkví í fjórtán daga frá komu. Þessar reglur eru í gildi til 15. maí.
Sjá einnig: 265 missa vinnuna í átta hópuppsögnum
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar nú síðdegis að taka þyrfti ákvörðun vel fyrir þann tíma hvort reglunum yrði haldið óbreyttum vikurnar á eftir eða hvort þeim yrði breytt.
Hann kvað þessi mál í skoðun hjá embættinu og hagsmunaaðilum, sem ætla má að séu einkum innan ferðaþjónustunnar. Þórólfur sagði að sóttvarnalæknir þyrfti þó að hafa heilsufarsleg sjónarmið til grundvallar í þessum efnum. Þá lagði hann áherslu á að ákvarðanir íslenskra stjórnvalda um landamæralokanir hefðu engin úrslitaáhrif.
„Ég bendi hins vegar á það að ég held að ferðamennskan hér á Íslandi, hún standi ekki og falli núna með því hvort við opnum eða höfum landamærin lokuð. Það er engin ferðamennska í gangi. Það gætu kannski slæðst hingað einstaka ferðamenn eða einstaka hópar en ég held að það yrði ekki í neinum stórum mæli sama hvað við gerðum,“ sagði Þórólfur.
„Og ég held að það sé hollt að hafa í huga að þetta er ekki bara um það hvað við ákveðum að gera, heldur hvað aðrar þjóðir gera líka og hvernig þær haga sínum landamæratakmörkunum og svo framvegis.“
Líkt og fram hefur komið hefur ferðaþjónustan þegar farið afar illa úti úr kórónuveirufaraldrinum, sem lamað hefur samgöngur um allan heim. Ljóst er að mörgþúsund manns innan geirans verði sagt upp störfum nú um mánaðamótin.